Þegar styrkur CO2 í andrúmsloftinu var svipaður og í dag
Með því að skoða fornloftslag er hægt að sjá nokkuð skýra mynd af framtíð loftslags hér á jörðinni. Styrkur CO2 eykst sífellt í andrúmsloftinu og nú hefur hann náð styrkleika sem er um 390 ppm. Síðast þegar styrkur CO2 í andrúmsloftinu var í slíkum hæðum var fyrir um það bil 3 milljón árum síðan (2,6-5,0 m.á), á plíósen tímabilinu. Á þeim tíma var styrkur CO2 í andrúmsloftinu um 365-410 ppm og nokkuð stöðugur í þúsundir ára. Því er óhætt að segja að plíósen veiti okkur góða innsýn í þau langtímaáhrif sem CO2 í þessu magni getur valdið. Nýlegar rannsóknir styðja fyrri rannsóknir sem sýna fram á að plíósen hafi verið nokkuð hlýrra en hitastigið í dag.
Csank et al 2011 , nota tvær óháðar aðferðir til að mæla staðbundið hitastig Ellesmere eyja á plíósen, en eyjarnar eru nú í nístingskulda norðurskautsins norðvestur af Grænlandi. Samkvæmt þeim aðferðum er sýnt fram á að hitastig eyjanna var á bilinu 11-16°C hærra yfir sumartímann en hann er í dag. Hnattrænt hitastig á þessu tímabili er áætlað um 3 til 4°C heitara en var rétt fyrir iðnbyltingu. Sjávarstaða var þá um 25 metrum hærri en núverandi sjávarstaða (Dwyer 2008).
Þetta segir okkur ýmislegt um næmni loftslags við styrkaukningu á CO2 í andrúmsloftinu. Ef okkur tækist að koma á stöðugu CO2 gildi í kringum 400 ppm, þá mættum við samt búast við enn frekari hlýnun eða um 2-3°C, ef til lengri tíma er litið . Það er nokkuð meiri hækkun hitastigs en búist er við ef skoðuð eru loftslagslíkön. Sá munur er vegna þess að í loftslagslíkönum er einungis tekið með í reikninginn skammtíma svörun loftslagsins, þ.e. magnandi svörun vegna aukinnar vatnsgufu og bráðnunar hafíss. Þau taka aftur á móti ekki tillit til langtíma magnandi svörunar vegna bráðnunar ísbreiðanna og gróðurbreytinga.
Þessi grein, í samhengi við nýlegar athuganir, sýnir okkur einnig hversu viðkvæmar ísbreiður Grænlands og Suðurskautsins eru fyrir stöðugu og háu hitastigi. Núverandi bráðnun ísbreiðanna er að aukast, sem dæmi þá var Grænlandsjökull í jafnvægi fyrir tuttugu árum síðan. Fyrir áratug þá bráðnaði Grænlandsjökull um um það bil 100 milljarða tonna á hverju ári. Nú er bráðnunin um 300 milljarða tonna á ári.
Saga loftslagsbreytinga á fyrri tímabilum jarðsögunnar ættu að senda okkur skýr skilaboð – sá CO2 styrkur sem er nú þegar í andrúmsloftinu er langt í frá öruggur. Það þýðir að það er ekki nóg að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, heldur þarf einnig að leita leiða til að fjarlægja CO2 úr andrúmsloftinu.
Translation by Hoskibui. View original English version.